Menu

Teymið

Fólkið er fjársjóðurinn

Tjarnargatan væri ansi tómleg ef ekki væri fyrir fólkið sem fyllir hana á hverjum degi. Fólkið okkar kemur úr ólíkum áttum og hefur í farteskinu ýmiskonar sérfræðiþekkingu. Fólkið er fjársjóður og við teljum styrkleika okkar meðal annarra felast í fjölbreytileika,  því þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll með augun á sama punktinum og það er að gera vel. Verkefnin eru fjölbreytt og það erum við líka.

Addi Atlondres

Eigandi / Creative director / Leikstjóri

Addi Atlondres heitir reyndar Arnar Helgi Hlynsson á öllum formlegri pappírum. Addi er þannig úr garði gerður að hann nýtur sín hvergi betur en á bólakafi í verkefnum. Fáir standa honum á sporði þegar kemur að þeirri list að halda mörgum boltum á lofti í einu og láta þá alla rata rétta leið í markið með glæsibrag. Hann er einn þeirra sem sennilega fékk þessa auka klukkutíma í sólarhringinn sinn í vöggugjöf sem ansi margir óska sér. Heppilegt fyrir okkur því það endurspeglast til að mynda í að ekkert verk fer úr húsi fyrr en Addi hefur lagt blessun sína á það og gulltryggt Tjarnargötu-gæðin.

Atli Þór Einarsson

Klippari / Tökumaður / Leikstjóri

Atli Þór er hárnákvæm týpa í einu og öllu. Tökum hárið á honum sem dæmi. Þar er hverju hári komið fyrir á réttum stað af mikilli natni á hverjum einasta degi og hann gefur hvergi afslátt af sér. Svona kemur hann líka fram við verkefnin sín. Ekkert er óvart, allt er skipulagt og hundrað prósent. Hann er með allt á hreinu. Svo er hann líka með stálminni og veigrar sér ekki við að þylja upp matseðil og innihald rétta á Ginger fyrir áhugasama. Þið vitið bara af því.

Baldvin Albertsson

Leikstjóri / Hugmyndasmiður / Handritsgerð

Einhverjir og mögulega Baldvin sjálfur, vilja meina að hann sé uppi á kolröngum tíma og í bandvitlausu landi. Baldvin hefur einhverja ólýsanlega tengingu aftur í fornöld sem gefur honum og okkur sannarlega áhugaverða vídd til að vinna með. Hann leikstýrir sínum hugmyndum og annarra og gerir það einkar vel. Eins og það sé ekki nóg, þá herma fregnir að okkar allra besti Baldvin sé í raun tónlistarmaðurinn Balbert Alvin. Við seljum það auðvitað ekki dýrara en við keyptum það.

Berglind Pétursdóttir

Creative

Einar Ben

Eigandi / Framkvæmdarstjóri / Hugmyndasmiður

Einar Ben er ókrýndur Íslandsmeistari í fjölda tölvupóstsendinga og símtala á sama tíma- án adrenu. Hann er líka dálítið fær í að rugla saman apóteki og bakaríi, Stokkhólmi og Osló og svoleiðis smotteríi. En það er bara vegna þess að hann er að hugsa um eitthvað sem skiptir í alvöru máli. Eins og að stjórna þessu fyrirtæki. Ljós hans skín sjaldan eins skært og við fundarsetu, þar sem hugmyndasmíð og smjaður,lauslega blandað við daður, leika í höndunum á honum. Svo er hann líka ansi sleipur í fimmaura gríni, að eigin sögn. Við erum náttúrulega ekki hér til að dæma.

Einar Eyland

Gísli Brynjólfsson

Art direction / Klippari / Grafík / Litvinnsla

Gísli er skrifstofusöngvarinn. Allar betri skrifstofur hafa einn og okkar er líklega betri en þinn, Gísli er til dæmis söngvari hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar Chinese Joplin sem fæstir kannast við. Hann gengur oftar en ekki undir nafninu G.Thors innan veggja skrifstofunnar, mjög líklega ekki að eigin vali. Hann er með sannkallaða arnarsjón þegar kemur að litum og nemur eitthvað sem aðeins fólk með áttunda eða jafnvel níunda skilningarvitið tengir almennilega við. Gísli er týpan sem gefur myndböndunum lit, fattiði hvert við erum að fara? Skoðið bara myndböndin, þau eru æði.

Gunnar Anton Guðmundsson (Ganton)

Tökumaður / Klippari

Nöfnin Gunnar og Anton renna fallega saman í Ganton og hér höfum við hann. Honum er svo sem ekki flysjað saman því tökumaðurinn Ganton er líka tungumálasjéní. Hann skilur þrjú tungumál en talar sjö! Ef það er ekki hæfileiki er erfitt að beina fingri á hvað fellur undir þá skilgreiningu. Ganton lærði í Tékklandi og tékkar fá dálítið oft Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatöku þannig að núna erum við að vinna með að bíða aðeins. Svo förum við öll saman og hjálpum honum að halda á styttunni hans. Þangað til getum við ornað okkur við sögur af mini-golf raunum Gantons. Þær eru ekki síðri en einhver Óskar.

Hilmir Berg Ragnarsson

Editor / D.O.P.

Inga Óskarsdóttir

Handritshöfundur og framleiðandi

.

Kári Jóhannsson

Klippari / Hljóðvinnsla

Kári er eini starfsmaður Tjarnargötunnar sem er með einkaskrifstofu. Hljóðmenn eru jú þekktir forréttindagrísir og við ætlum ekki að vera þau sem rugga þeim bát. Kári elskar allskonar hljóð og er lunkinn við að búa til tónlist. Hann spilar svo þessa tónlist, á bassann í hljómsveitinni Chinese Joplin. Kári er líka klippari. Það er vandlifað að vera titlaður klippari, það býður uppá svo mikið af vondu gríni. Eitt sem er samt ekki vont grín, en það er hið góða grín þegar stéttarfélagið hans Kára ranglega flokkaði hann sem hárklippara og stóð á því fastar en fótunum. Það er fyndið. Hann hefur ekki enn náð að skrúfa fyrir flæði stöðugra tilboða og smellinna sagna úr hárgreiðslubransanum. Honum til ómældrar gleði vitaskuld. Kári hefur gaman af þessu.

Magnús Ingvar Bjarnason

Tökumaður / Klippari

Magnús er líklegur til að hlaupa undir bagga með starfsmanni í bobba, hvort sem er framkvæmdar- eða hreinlega húsnæðisvanda. Hann er nefnilega smiður. Hann er samt ekki að fara að leysa húsnæðisvanda borgarinnar, því hann er upptekinn við að taka upp og klippa efni hjá okkur. Sorrý, en hann er mjög fær. Svo boxar hann líka. Í beinu framhaldi þarf kannski ekki að taka það fram en Magnús sleppur alfarið við gagnrýni á skrifstofunni. Grín. Við gagnrýnum alla, pössum okkur bara á að vera með boxhanskana klára við ákveðin tilefni.

Orri Freyr Rúnarsson

Hugmyndasmiður / Tengill

Orri á X-inu 977 er núna Orri á Tjarnargötunni, Tryggvagötu 17. Eftirköst útvarpsáranna láta stundum á sér kræla og þá bara hlustum við aðeins á hann. Orri er nefnilega þrælsniðugur og tekst með ótrúlegum hætti að snara sæmilegum hugmyndum yfir í stórkostlegar hugmyndir. Svo er hann líka býsna fær í samskiptum við annað fólk, og fiska. Einu sinni tókst honum að lífga fisk við með skyndihjálp.Hann var nærri drukknaður. Til að gera langa skrítna sögu mjög stutta, þá lifir fiskurinn enn góðu lífi í Sviss. Orri er sumsé kraftaverkamaður og sagan um fiskinn gæti verið myndlíking fyrir hugmynd í andaslitrum. Hann reddar þessu.

Rakel Dögg Bragadóttir

Rekstrarstjóri

Rakel er aleini starfsmaður Tjarnargötunnar sem getur byrjað sögur á „þegar ég var í landsliðinu…” án þess að vera að segja eitthvað skrattans rugl. Hún er handboltakempa með 97 leiki með íslenska A-landsliðinu á bakinu. Svo þjálfar hún Stjörnuna og hóp fjórtán ára stelpna í landsliðsham samhliða því að láta til sín taka á skrifstofunni. Hún er sumsé nánast allan sólarhringinn með allskonar bolta á lofti, stundum handbolta stundum bolta sem merktir eru sölu, framleiðslu eða fjármálum. Já, okkur finnst þetta orðagrín alls ekki orðið þreytt og líklega notum við þetta mjög oft í viðbót.

Skapti Magnús Birgisson

Director of Photography

Skapti hefur starfað með okkur nánast frá byrjun, svo hann er elsti og yngsti starfsmaður Tjarnargötunnar. Hversu áhugaverð mótsögn! Hann hefur hlaðið á sig reynslu og þekkingu úr öllum snertiflötum framleiðslu auk þess að hafa leikstýrt fjölmörgum verkefnum. Hann heillast þó einna helst að kvikmyndatökum enda mjög fær á því sviði. Skapti sinnir þannig mörgum mikilvægum skyldum innan Tjarnargötunnar og þó það sé ekki hátt skrifað, þá skiptir miklu máli að halda eldriborgurum fyrirtækisins á tánum er kemur að frösum og samfélagslega samþykktri hegðun ungu kynslóðarinnar. Skapta fer það verk vel úr hendi. Hann er algjörlega on fleek þar. Ekki?

Róbert Magnússon

Vertu í bandi

Ef þú hefur einhverjar spurningar, uppástungur eða hefur náð þeim stað að langa til að óska eftir tilboði í verkið, þá erum við meira en tilbúin til að taka vel á móti þér.